Töp hjá íslensku liðunum á Smáþjóðaleikunum
Keppni hófst í borðtennis á Smáþjóðaleikunum á Möltu þann 30. maí með liðakeppni. Keppt var í riðlum og síðan leikið í kross upp úr riðlunum í undanúrslitum og úrslitum, sem fara fram 31. maí.
Íslensku karla- og kvennaliðin léku hvort um sig tvo leiki og töpuðust báðir 0-3. Í viðureignunum er leikið skv. Corbillion fyrirkomulagi, sem var einnig notað í íslensku kvennadeildinni í vetur. Leiknir eru tveir einliðaleikir, svo tvíliðaleikur og loks aftur tveir einliðaleikir ef þörf krefur.
Karlaliðið, skipað þeim Inga Darvis Rodriguez og Magnúsi Gauta Úlfarssyni, mættu fyrst liði Kýpur og síðan liði San Maríno. Karlalið Kýpur eru ríkjandi meistarar. Skv. frásögn Ingimars Ingimarssonar, sem er með liðinu á leikunum í fjarveru Peters Nilssonar landsliðsþjálfara, átti Magnús Gauti góðan leik gegn Smáþjóðaleikameistaranum Marios Yiangou frá Kýpur, en tapaði leiknum 1-3. Ingi Darvis lék líka vel í sínum einliðaleik. Tvíliðaleikurinn var frábær og munaði litlu að íslensku karlarnir ynnu hann en hann tapaðist 1-3.
Kvennaliðið, skipað Nevenu Tasic og Sól Kristínardóttur Mixa, lék við lið Lúxemborgar og Kýpur. Lið Lúxemborgar er mjög sterkt enda nýkomið frá heimsmeistaramótinu í einstaklingskeppni og þær eru ríkjandi Smáþjóðaleikameistarar. Nevena var nálægt því að vinna lotu í einliðaleiknum og Sól átti líka góðan leik á sínu fyrsta stórmóti.
Leikur kvennanna gegn Kýpur var mun jafnari. Nevena tapaði sínum einliðaleik 8-11 í oddalotu og Sól tapaði 1-3. Aldís Rún Lárusdóttir, sem er með kvennaliðinu á leikunum, var ánægð með þeirra baráttu.
Ásmundur Einar Daðason, menna- og barnamálaráðherra, sem jafnframt er ráðherra íþróttamála, var gestur á borðtenniskeppninni í dag ásamt íslensku sendinefndinni.
Karlarnir leika við lið Mónakó kl. 10 að staðartíma þann 31. maí og er það síðasti leikur þeirra í riðlinum. Þar sem aðeins eru skráð 6 lið í liðakeppni kvenna hefur íslenska kvennaliðið lokið keppni í liðakeppninni.
Heimasíða mótsins: https://gssemalta2023.mt/