Töp hjá strákunum í síðustu leikjunum í riðlakeppni EM
Magnús Gauti Úlfarsson og Magnús Jóhann Hjartarson töpuðu báðir í þriðja og síðasta leik sínum í riðlakeppninni í einliðaleik á EM í Alicante.
Magnús Jóhann tapaði fyrir Miguel Vilchez frá Spáni 0-4 (7-11, 8-11, 6-11, 11-13). Miðað við tölurnar virðast sumar loturnar hafa verið jafnar en Vilchez er nr. 157 á styrkleikalista ETTU á meðan Magnús er nr. 501.
Magnús Gauti tapaði 0-4 (3-11, 3-11, 3-11, 5-11) fyrir Zsolt Peto frá Serbíu. Hann er nr. 187 á styrkleikalista ETTU en Magnús Gauti er nr. 258.
Þeir nafnar léku líka saman í tvíliðaleik í dag, 19. september, og töpuðu 0-3 (11-13, 5-11, 6-11) fyrir hinum hálfíslenska Borgar Haug, sem keppir fyrir Noreg, og meðspilara hans, Tomas Mikutis frá Litháen.
Í gær, þann 18. september, lék Magnús Jóhann með norsku stúlkunni Rebekku Carlsen í tvenndarkeppni. Þau töpuðu 1-3 (11-7, 5-11, 8-11, 5-11) fyrir Teodor Alexandrov frá Búlgaríu og Eminu Hadziahmetovic frá Bosníu-Herzegóvínu. Magnús Jóhann vann því tvær lotur á mótinu.
Forsíðumynd af fésbókarsíðu BTÍ.
ÁMU