Automatic translation by Google Translate. We cannot guarantee that it is accurate.

image description

Tvíliðaleikur dagur 3

Tvíliðaleikur kvenna

Í tvíliðaleik kvenna lentu þær Aldís Rún Lárusdóttir og Guðrún G. Björnsdóttir í B-riðli með Svartfjallalandi og  Mónakó, sem lentu í öðru sæti í liðakeppninni í gær. Fyrsti leikurinn var við Svartfjallaland, þrátt fyrir góða baráttu þá töpuðu stelpurnar 3-0.

Seinni leikur dagsins var á móti sterku liði Mónakó. Þær áttu góðan leik og gáfu ekkert eftir í baráttunni. Það dugði þó ekki til að þessu sinni og urðu þær að sætta sig við 3-0 tap.

Lúxemborg vann A-riðil og Malta lenti í öðru.

Mónakó vann B-riðil og Svartfjallaland lenti í öðru.

Í undanúrslitum áttust við Lúxemborg og Svartfjallaland annars vegar og Malta og Mónakó hins vegar. Sterkt lið Lúxemborg var ekki í vandræðum með að vinna lið Svartfjallalands og unnu auðveldlega 3-0. Mónakó var heldur ekki í neinum vandræðum í sínum leik og vann Möltu nokkuð örugglega 3-0.

Úrslitaleikurinn var þá milli Lúxemborg og Mónakó, en þessi lið mættust í úrslitum í liðakeppninni. Hart var barist í leiknum og hefur sjaldan verið eins mikil gæði á úrslitaleik í tvíliðaleik kvenna á Íslandi. Stelpurnar frá Lúxemborg voru hreinlega betri í dag og unnu leikinn nokkuð örugglega 3-0.

 

Tvíliðaleikur karla

Í tvíliðaleik karla voru þeir Magnús K. Magnússon og Daði Freyr Guðmundsson í A-riðli með Svartfjallalandi, sem lenti í öðru sæti í liðakeppninni og Lúxemborg sem vann tvíliðaleik karla á síðustu Smáþjóðaleikum. Fyrsti leikurinn var við Svartfjallaland. Strákarnir spiluðu vel og voru flestar loturnar tæpar og var ekkert gefið eftir, leikurinn endaði með sigri Svartfjallalands 3-0.

Strákarnir spiluðu svo seinni leikinn í riðlinum við Lúxemborg. Að þessu sinni átti Ísland við ofurefli að etja, þrátt fyrir baráttu þá  tapaðist leikurinn 3-0.

Svartfjallaland vann A-riðil og Lúxemborg lenti í öðru.

San Marínó vann B-riðil og Kýpur lenti í öðru.

Í öðrum undanúrslitaleiknum áttust við Svartfjallaland og  Kýpur, en Kýpur kom á óvart með því að komast upp úr riðlinum. Þó voru Svartfellingar sterkari þrátt fyrir mikla baráttu hjá Kýpverjum og unnu Svartfellingar leikinn 3-0.

San Marínó keppti við Lúxemborg í hinum undanúrslitaleiknum. Lúxemborg þurfti nauðsynlega að vinna til að eiga möguleika á að verja titilinn frá því fyrir tveimur árum. San Marínó menn ætluðu sér ekki að gefa neitt eftir en Lúxemborgarar voru ákveðnari og unnu leikinn 3-1.

Þá mættust í úrslitum Svartfjallaland og Lúxemborg. Lúxemborgarar ætluðu sér að vinna leikinn og verja titilinn, en Svartfellingar ætluðu sér sigur eftir tapið í úrslitaleiknum í liðakeppninni. Það var jafnt á liðum og mikið af flottum stigum. Á endanum skilaði baráttan sér hjá Svartfellingunum og þeir sigruðu leikinn 3-1.

 

Á morgun hefjast svo einliðaleikir karla og kvenna og byrjar keppnin klukkan 10:00. Fyrstu Íslendingarnir byrja að spila klukkan 11:00.

Aðrar fréttir