Automatic translation by Google Translate. We cannot guarantee that it is accurate.

Tvöfaldur íslenskur sigur í liðakeppni á Arctic

Ísland sigraði bæði í liðakeppni karla og kvenna á Arctic mótinu í borðtennis, sem fram fer í TBR-húsinu. Það þurfti svo sannanlega að hafa fyrir sigrunum því keppnin var æsispennandi og réðust úrslit ekki fyrr en í blálokin.

Í kvennaflokki urðu þrjú lið efst með 8 stig, þ.e. unnu fjóra leiki og töpuðu einum. Liðin unnu hvort annað í hring og enduðu allir leikirnir 3-2. Ísland-A vann Grænland 3-2 en tapaði 2-3 fyrir A-liði Færeyja. Færeysku stúlkurnar gátu tryggt sér sigur á mótinu með sigri gegn Grænlandi í síðasta leiknum en þar hafði Grænland betur 3-2. Því þurfti að telja loturnar í leikjum þessara liða. Þar hafði Ísland betur, vann 22 lotur en tapaði 18. A-lið Færeyja vann 19 lotur og tapaði 18. Grænlensku konurnar unnu 17 lotur en töpuðu 22. Sigurlið Íslands skipuðu Agnes Brynjarsdóttir, Aldís Rún Lárusdóttir, Nevena Tasic og Stella Karen Kristjánsdóttir. Nevena var drjúg í sigrinum en hún vann alla 8 leiki sína. Hin 12 ára Agnes Brynjarsdóttir lék sína fyrstu landsleiki í fullorðinsflokki á mótinu.

B-lið Færeyja varð í 4. sæti með 4 stig. C-lið Íslands fékk 2 stig og B-lið Íslands ekkert stig.

Keppnin var líka mjög jöfn í karlaflokki og í síðustu umferðinni var staðan sú að Ísland-A gat tryggt sér sigur í keppninni með sigri á Grænlandi. Ísland-A tapaði hins vegar 2-3 og datt þar með niður í 4. sæti. B-lið Íslands sigraði með 8 stig, tapaði aðeins fyrir Íslandi-A 2-3. Lið Grænlands varð í 2. sæti, einnig með 8 stig. A-lið Færeyja fékk 6 stig, eins og A-lið Íslands, en Færeyingar fengu bronsið þar sem þeir unnu Ísland-A. Sigurlið Íslands-B var skipað Ellert Kristjáni Georgssyni, Jóhannesi Bjarka Urbancic Tómassyni og Magnúsi K. Magnússyni.

B-lið Færeyja fékk 2 stig og C-lið Íslands ekkert stig.

Úrslit úr öllum leikjum má sjá á vef Tournament Software.
http://www.tournamentsoftware.com/sport/tournament.aspx?id=50C5DD7C-E1A1-4342-B4E5-31C5F12BC4F0

Myndir af fésbókarsíðu BTÍ en þar eru fjölmargar myndir frá mótinu. Aldísi Rún Lárusdóttur vantar á mynd af liðakeppni kvenna.

Einnig er streymt beint frá mótinu.

Uppfært 19.5. og myndir settar inn 20.5.

Aðrar fréttir