UMF Vísir og UMF Hekla hefja borðtennisstarf
Útbreiðsla borðtennisíþróttarinnar heldur áfram með góðum árangri og nú síðast hafa tvö félög bæst við í sambandið.
Fulltrúar Umf. Vísis höfðu samband í byrjun janúar og óskuðu eftir aðild að sambandinu. Félagið er gamalgróið ungmennafélag í Suðursveit (781 Hornafirði) stofnað árið 1912 með samfellda starfsemi fram að aldamótum en lagðist í dvala í rúmlega tuttugu ár og var formlega endurvakið 15. apríl 2022.
Mikill áhugi og góð þátttaka sveitunga og nærsveitunga hefur verið á öllum viðburðum sem haldnir hafa verið á vegum félagsins frá endurstofnun ásamt frábærum stuðningi frá sveitarfélaginu Hornafirði. Félagið hefur t.a.m. haldið nokkra borðtennisviðburði undanfarið, nú síðast jólamót 2024 með 23 þátttakendum.
Á heimavelli Vísis í félagsheimilinu Hrollaugsstöðum í Suðursveit eru tvö borð en félagið hefur áhuga á að eignast fleiri og getur líka fengið borð lánuð frá Höfn í Hornafirði. Til að kynna sér borðtennislandslagið betur stefnir félagið á að senda um tvo keppendur á Íslandsmótið í TBR, fyrstu helgina í mars.
Eins og sést í dagatalinu hér á heimasíðu BTÍ verður haldin kynningarhelgi á Kirkjubæjarklaustri (Umf. Ás) og í Suðursveit 12.-13. apríl nk. með æfingu og líklegast litlu móti á hvorum stað fyrir sig. Greint var frá því í ágúst 2024 að vikulegar borðtennisæfingar hefðu hafist á Kirkjubæjarklaustri og er gaman að segja frá því að í millitíðinni hefur félagið hlotið viðurkenningu sem fyrirmyndarfélag ÍSÍ.
Á Suðurlandi er það svo helst í fréttum að Umf. Hekla á Hellu hefur hafið vikulegar æfingar fyrir tvo aldurshópa, öll fimmtudagskvöld. Félagið var virkt fyrr á öldinni og átti 16 leikmenn á styrkleikalistanum á tímabilinu 2017-2019 en síðast kepptu leikmenn undir merkjum félagsins vorið 2020. Þeir leikmenn æfðu hins vegar hjá Borðtennisdeild Dímonar á Hvolsvelli og því er mjög ánægjulegt að æfingar séu komnar af stað hjá félaginu.
Samkvæmt formanni félagsins, Ástþóri Jóni Ragnheiðarsyni, höfðu foreldrar kallað eftir að endurvekja borðtennisstarf á Hellu og náði Umf. Hekla að útvega þrjú eldri borð og kaupa fjögur ný til að koma starfinu af stað.
Þjálfari er Gunnlaugur Friðberg Margrétarson sem æfði borðtennis lengi á heimaslóðum sínum á Hvolsvelli. Á fyrstu æfingarnar 9. og 16. janúar 2025 mættu 14 og svo 16 krakkar og er ljóst að áhuginn er mikill.
Félagið hyggst taka þátt í dómara- og þjálfaranámskeiðum BTÍ sem eru í bígerð nú á vorönn og hafa leikmenn strax áhuga á að taka þátt í Íslandsmótum og fyrsta móti Umf. Garps í lok apríl.
Borðtennissambandið óskar Umf. Vísi og Umf. Heklu alls hins besta í komandi borðtennisstarfi!