Úrslit úr einstökum flokkum úr Kjartansmóti KR laugardaginn 12. nóvember
Mjög góð þátttaka var í Kjartansmóti KR í borðtennis, sem fram fór í KR-heimilinu helgina 12.-13. nóvember. Alls voru 125 einstaklingar skráðir til leiks og á leikjaáætlun helgarinnar voru um 400 leikir. Þátttakendur komu í fyrsta skipti frá Borðtennisdeild Badmintonfélags Hafnarfjarðar, sem og frá HK, KR, Nes og Víkingi.
KR-ingar áttu flesta þátttakendur í unglingaflokkum og sigruðu í 6 af 8 aldursflokkum. HK sigraði í einum flokki og Víkingur í einum.
Kolfinna Bergþóra Bjarnadóttir úr HK sigraði bæði í 2. flokki kvenna og í flokki telpna 12-13 ára. Fríður Rún Sigurðardóttir úr KR sigraði í meistaraflokki kvenna og í flokki ungmenna stúlkna 16-21 árs.
ÁMU