Automatic translation by Google Translate. We cannot guarantee that it is accurate.

Útbreiðslunefnd BTÍ kaus sér formann

Fimmtudagseftirmiðdaginn 9. nóvember sl. fundaði útbreiðslunefnd BTÍ 2023-2024 í fyrsta skipti í eigin persónu og kaus sér formann við það tækifæri. Nefndina skipa Auður Tinna Aðalbjarnardóttir, formaður BTÍ, Már Wolfgang Mixa, gjaldkeri BTÍ og hinn nýi formaður Sigurgeir Ingi Eyvinds Þorkelsson.

Sigurgeir kom nýr inn í borðtennishreyfinguna í haust en hann er þrítugur Reykvíkingur (áður Kópavogsbúi) og hefur reynslu af heimi íþróttanna sem fyrrum afreksunglingur í karate. Sigurgeir hefur lagt stund á stjórnmálafræði með kynjafræði sem aukagrein við Háskóla Íslands og hefur sú sérhæfing hans komið að góðum notum á fundum útbreiðslunefndar um fjölgun stúlkna, innflytjenda og iðkenda á landsbyggðinni í borðtennis, sem eru meðal helstu stefnumála nefndarinnar. Þá hefur starfsreynsla Sigurgeirs sem fyrrum viðburðarstjóri Samtakanna 78 og úr stúdentapólitík, stjórnmálum og nemendafélagsstjórnun jafnframt nýst vel.

Stjórn BTÍ býður Sigurgeir velkominn í hreyfinguna og óskar útbreiðslunefnd áframhaldandi velgengni á yfirstandandi borðtennisári. Skemmst er frá því að segja að stjórn hefur á mánaðarlegum fundum sínum í haust verið afar sátt við þá staðreynd að nefndin hafi í sumar og haust aðstoðað sjö nýjar borðtennisdeildir við að komast af stað með vikulegar æfingar (spaðadeild UMFL á Laugarvatni, borðtennisdeildir UMF Gnúpverja og UMF Skeiðamanna í Árnesi, borðtennisdeild UMF Þrists á Egilstöðum, borðtennisdeild almenns sviðs UMF Vals á Reyðarfirði, Borðtennisfélag Mosfellsbæjar og UMF Hvöt á Blönduósi).

 

Aðrar fréttir