Vel heppnaðar fjölskylduæfingar hjá ÍR
Sunnudaginn 26. janúar og laugardaginn 1. febrúar 2025 kl. 10-12 bauð Íþróttafélag Reykjavíkur upp á sínar fyrstu formlegu borðtennisæfingar – opnar fjölskylduæfingar í ÍR-heimilinu, Skógarseli 12, svokölluðum „fan-zone“ sal. Sjá viðburð hér: https://www.facebook.com/events/1246656029750102
Félagið hefur árum saman átt í nokkrum samskiptum við BTÍ um að kanna áhuga í hverfinu og að koma starfi af stað en húsnæðiskortur og lekavandamál hafa helst staðið þeim áformum fyrir þrifum.
Nú er orðið ljóst að áhuga skortir ekki en 52 ólíkir einsttaklingar tóku þátt í æfingunum tveimur, aðallega börn ásamt foreldrum sínum og að hluta til voru það krakkar sem höfðu fengið borðtenniskennslu í íþróttatímum í Breiðholti á vegum BTÍ fyrir áramót: https://bordtennis.is/bordtenniskennsla-i-breidholti/
Æfingunum stýrðu Auður Tinna Aðalbjarnardóttir, formaður BTÍ og Benedikt Aron Jóhannsson, unglingalandsliðsleikmaður og þjálfari hjá Borðtennisdeild Víkings og Borðtennisdeild Leiknis. Foreldrar hans, Jóhann Ingi Benediktsson, meðstjórnandi í BTÍ og Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir, forseti hlaupahóps ÍR og stjórnarmaður í frjálsíþróttadeildinni, hjálpuðu einnig mikið til. Leikið var á fimm borðtennisborðum og brugðið til þess ráðs að setja borðtennisnet og bækur sem skilrúm á fimm borð til viðbótar þegar þátttakan náði hápunkti.
BTÍ þakkar Hafdísi Hansdóttur, framkvæmdastjóra og Erlendi Ísfeld, rekstrarstjóra kærlega fyrir samstarfið hingað til og verður spennandi að sjá hvert framhaldið verður.
Myndir frá Auði Tinnu Aðalbjarnardóttur.