Víkingar Íslandsmeistarar í 1. deild karla og kvenna
Lið Víkings sigruðu bæði í 1. deild karla og kvenna í úrslitaleikjum deildarkeppninnar, sem fram fóru í Íþróttahúsinu við Strandgötu í Hafnarfirði í dag. Í báðum úrslitaleikjunum lögðu Víkingar deildarmeistarana frá keppnistímabilinu sem er að ljúka.
Víkingur vann BH 3-0 í úrslitum í 1. deild kvenna og varð Íslandsmeistari sjötta árið í röð. Öllum leikjum lauk með 3-1 sigri Víkings. Eva Jósteinsdóttir og Lilja Rós Jóhannesdóttir unnu tvíliðaleikinn gegn Harriet Cardew og Sól Kristínardóttur Mixa. Nevena Tasic vann Vivian Huynh og Lilja vann svo Sól í lokaleiknum.
Einnig léku Berglind Ósk Sigurjónsdóttir og Stella Karen Kristjánsdóttir fyrir Víking í vetur og með liði BH lék Kristín Ingibjörg Magnúsdóttir.
Úrslitaleikurinn í karlaflokki var jafnari en leikurinn í kvennaflokki. Í tvíliðaleiknum léku Kári Mímisson og Magnús Jóhann Hjartarson fyrir Víking gegn Ellert Kristjáni Georgssyni og Pétri Gunnarssyni og höfðu Víkingar sigur 3-1. Ingi Darvis Rodriguez vann svo Norbert Bedo 3-2, 11-9 í oddalotu og kom Víkingum í 2-0 forystu. Ellert hélt KR inni í leiknum með 3-2 sigri á Magnúsi Jóhanni og Norbert jafnaði viðureignina með 3-2 sigri á Kára. Ingi Darvis tryggði svo Víkingum sigurinn með öruggum 3-0 sigri á Pétri í lokaleiknum.
Með A-liði Víkings í vetur léku auk þessara þau Daníel Bergmann Ásmundsson, Ísak Indriði Unnarsson, Jörg Sonnentag, Magnús Finnur Magnússon og Nevena Tasic.
Fyrir KR-A léku í vetur þeir Gestur Gunnarsson og Karl Andersson Claesson, auk þeirra leikmanna sem léku úrslitaleikinn.
Einnig var leikið til úrslita í 2. og 3. deild.
Í 2. deild karla sigraði Víkingur-B deildarmeistara HK-B 3-1. B-lið Víkings leikur því í 1. deild karla á næsta ári. Lið Víkings í leiknum skipuðu þeir Benedikt Aron Jóhannsson, Hlynur Sverrisson og Ladislav Haluska. Í liði HK voru Björgvin Ingi Ólafsson, Reynir Georgsson og Örn Þórðarson.
Í 2. deild kvenna átti C-lið KR að mæta liði BR í úrslitum, en lið BR mætti ekki til leiks. Með liði KR-C í vetur léku þær Guðbjörg Vala Gunnarsdóttir, Helena Árnadóttir, Marta Dögg Stefánsdóttir, Nataliá Marchiníková og Þórunn Erla Gunnarsdóttir
Þetta er í fyrsta skipti sem keppt er í 2. deild kvenna og C-lið KR er fyrstu meistararnir í 2. deild kvenna.
Sigurvegarar í 3. deild karla voru C-lið BH, sem lagði lið BM 3-2 í úrslitum. BH-C leikur því í 2. deild á næsta keppnistímabili. Með liði BH-C í leiknum léku Heiðar Leó Sölvason, Hergill Frosti Friðriksson og Kristján Ágúst Ármann en í liði BM voru Halldóra Ólafs, Magnea Ólafs og Mattia Contu.
Myndir frá Guðrúnu Gestsdóttur.