Automatic translation by Google Translate. We cannot guarantee that it is accurate.

Vinna við mótaskrá 2024-2025 hafin

Mótanefnd BTÍ hefur sent póst á fulltrúa félaga í BTÍ en undirbúningur fyrir nýtt keppnistímabil er hafinn. Nýja mótanefnd skipa Guðrún Gestsdóttir, formaður, Jón Gunnarsson og Sigurjón Ólafsson. Tómasi Shelton eru þökkuð frábær störf á liðnu keppnistímabili í mótanefnd og Jón Gunnarsson boðinn velkominn í hans stað.

Mikilvægar dagsetningar framundan:

  • 14. ágúst: Óskir um að halda deildarhelgar og Íslandsmót
  • 5. september: Skráning á liðum fyrir 3. deild karla
  • 8. september: Umsóknarfrestur um að halda önnur mót en deildarkeppni og Íslandsmót
  • 15. september: Skráningarfrestur fyrir nöfn keppenda í hverju liði í deildarkeppni karla
  • 1. október: Skráning á liðum og keppendum í 1. og 2. deild kvenna

Mótanefnd leggur til að byrja með áherslu á dagsetningar á deildarhelgum og Íslandsmótum enda mikilvægt fyrir félögin, leikmenn og BTÍ að dagsetningar liggi fyrir snemma og mótaskrá haldist óbreytt út tímabilið.

Í deildarkeppni karla verða þrír leikdagar fyrir áramót og tveir leikdagar eftir áramót. Í deildarkeppni kvenna verða tveir leikdagar, annar fyrir áramót og hinn eftir áramót. Úrslitakeppni verður haldin á vormánuðum.

Íslandsmót verða í umsjón BTÍ sem mun útvega mannskap, halda utan um skráningar og skipulag mótanna. Félög sem hýsa Íslandsmót munu fá greitt fyrir að útvega aðstöðuna ásamt uppstillingu og frágangi á sal.

Fulltrúar félaga BTÍ eru beðnir um að senda mótanefnd tillögur um hvaða deildarkeppnir og Íslandsmót fyrir 14. ágúst.

Mótanefnd leggur til að Íslandsmót öldunga verði fært frá febrúar fram í maí að þessu sinni.

Skráningar á liðum fyrir 3. deild karla þurfa að berast fyrir 5. september. Nöfn keppenda í hverju liði skulu berast fyrir 15. september.

Skráningar á liðum og nöfnum keppenda í kvennadeildum þurfa að berast fyrir 1. október.

Að lágmarki skal skrá 4 leikmenn í hvert karlalið, helst fleiri, svo minni líkur séu á að ekki takist að manna lið. Í kvennalið er leyfilegt að skrá 3 leikmenn, en þó mælst til þess að þeir séu fleiri.

Heimilt er að fá lánsleikmann (aðeins eitt skipti hvern leikmann) lánaðan úr liði sama félags úr neðri deild í efri deild. Ekki er hægt að kalla á lánsleikmann í lið í neðstu deildum karla og kvenna. Tilkynning um það skal senda á mótanefnd að minnsta kosti sólarhring fyrir deildarkeppni á þar til gerðu formi á bordtennis.is sem er væntanlegt. Reglugerð um lánsleikmenn er væntanleg.

Kvennadeild

Á síðasta tímabili var kvennadeildin öll spiluð á einum degi auk úrslitakeppni tveggja efstu liða. Þetta fyrirkomulag mæltist vel fyrir og aldrei höfðu jafnmörg kvennalið verið skráð til leiks. Mótanefnd vonast til að sem flest félög skrái kvennalið til leiks og það verði spilað í tveimur deildum eins og gert var á síðasta keppnistímabili. Við væntum þess að hafa tvær umferðir í kvennadeild næsta vetur, auk úrslitakeppni.

Keppnisgjöld

Keppnisgjöld fyrir hvert lið í 1. deild karla og kvenna er óbreytt frá síðasta tímabili. Greiða þarf keppnisgjöld fyrir fyrstu deildarhelgi vetrarins.

Keppnisgjald fyrir hvert lið í 1. deild er 25.000 kr. Félög sem senda lið í 1. deild karla og 1. deild kvenna fá 25% afslátt af keppnisgjaldi í 1. deild. Keppnisgjald fyrir hvert lið í 2. og 3. deild er 15.000 kr.

Fyrirkomulag úrslitakeppni

Fyrirkomulag sem var tekið upp í úrslitakeppni karla og kvenna sl. vetur verður óbreytt í ár í 1. deild karla og kvenna. Í 2. deild verður ekki úrslitakeppni eins og undanfarin ár en umspilsleikir verða spilaðir á sama tíma. Í 3. deild verður úrslitakeppni ef leikið verður í tveimur riðlum.

Spilað er á einu borði, vinna þarf þrjá leiki til að sigra. Notast verður við eftirfarandi fyrirkomulag en það var m.a. notað á European Games 2023.

  • Tvíliðaleikur BC vs YZ
  • Einliðaleikur A vs X
  • Einliðaleikur C vs Z
  • Einliðaleikur A vs Y
  • Einliðaleikur B x X

Mótanefnd 2024-2025 skipa

  • Guðrún Gestsdóttir, formaður
  • Jón Gunnarsson
  • Sigurjón Ólafsson

Aðrar fréttir