Stjórn BTÍ endurkjörin á ársþingi 11. maí
Ársþing BTÍ var haldið í húsnæði ÍSÍ í Laugardal sunnudaginn 11. maí.
Stjórn BTÍ var endurkjörin á þinginu. Kjörtímabil tveggja stjórnarmanna var á enda, þeirra Guðrúnar Gestsdóttur og Más Wolfgangs Mixa. Þau gáfu bæði kost á sér áfram og voru sjálfkjörin til tveggja ára en fram kom að þau hyggjast skiptast á embættum. Ruben Illera Lopez kemur nýr inn í varastjórn í stað Jóns Gunnarssonar, sem gaf ekki kost á sér til endurkjörs.
Á þinginu fengu tveir einstaklingar gullmerki BTÍ. Annar var Ólafur Elí Magnússon borðtennisfrömuður úr Dímon á Hvolsvelli (sjá forsíðumynd).
Hinn viðkakandinn er Kári Mímisson borðtennismaður, sem hefur verið formaður íþróttamannanefndar ÍSÍ síðan árið 2023 og náði því afreki að komast fyrstur borðtennismanna í framkvæmdastjórn ÍSÍ.
Kári var ekki viðstaddur þingið vegna dómgæslu sinnar í knattspyrnu í Vestmannaeyjum, en Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir, sem sat ársþingið fyrir hönd ÍSÍ tók við viðurkenningunni fyrir hans hönd.
Kolbrún flutti sterka hugvekju fyrir hönd framkvæmdastjórnar ÍSÍ, meðal annars um fagmennsku, jafnrétti og nauðsyn þess að þakka sjálfboðaliðum. Að þingi loknu þakkaði hún fyrir sig og sagðist „gagntekin“ af árangri BTÍ í útbreiðslumálum undanfarin tvö ár, m.a. því að félög með virkar borðtennisæfingar hefðu farið frá þremur í átta á Suðurlandi á tímabilinu.
Ársskýrslu BTÍ fyrir 2024-2025 er að finna í öðrum pósti hér á síðunni.
Aukaársþing þann 14. júní mun afgreiða reikninga og fjárhagsáætlun, sbr. aðra frétt hér á síðunni.
Fundargerð frá ársþinginu verður birt hér á vefnum þegar hún er tilbúin.
Myndir frá Ingimar Ingimarssyni.