Automatic translation by Google Translate. We cannot guarantee that it is accurate.

Vikan með BTÍ

,,Vikan með BTÍ” þó ekki með Gísla Marteini, mun vera fastur liður hjá okkur hérna á síðu borðtennissambandsins hvern sunnudag þar sem liðin vika verður gerð upp í málum og myndum sem og fjallað um viðburði næstu viku.  

Eins og flestir vita byrjaði vikan á flottu ársþingi borðtennissambandsins þar sem sl. tímabil var gert upp og ný stjórn kosin. Eins og áður hefur komið fram var kosin ný stjórn sem að þessu sinni skipa þau Ingimar, Auður Tinna, Hlöðver, Styrmir og Reynir. Í varastjórn voru kjörin Halldór Haraldz, Matthías Stephensen og Sigurður Eiríksson. Miklir heiðursmenn voru jafnframt heiðraðir á þinginu fyrir sín frábæru störf innan sambandsins; Guðmundur E. Stephensen, Bjarni Þorgeir Bjarnason, Hu Daoben og seinast en ekki síst var fráfarandi formaður, Sigurður V. Sverrisson, heiðraður með miklu lófaklappi enda gríðarlega óeigingjarnt starf sem hann hefur unnið fyrir sambandið undanfarin ár.

Sl. miðvikudag fundaði ný stjórn, í fyrsta skipti, þar sem verkum var skipt milli meðlima stjórnar; Ingimar (formaður), Styrmir (gjaldkeri), Auður (ritari), Hlöðver (varaformaður) og Reynir (meðstjórnandi). Sömuleiðis voru skipaðir formenn í nefndirnar þrjár; Reynir tók að sér formennsku útbreiðslunefndar, Ingimar hélt áfram sem formaður landsliðsnefndar og Hlöðver áfram sem formaður mótanefndar. Formenn nefnda munu nú fara á stjá og finna fólk með sér í þær nefndir og koma með drög að verkefnum og hugmyndum fyrir næsta stjórnarfund. Óhætt er að segja að mikil tilhlökkun og metnaður hafi einkennt fundinn og ný stjórn staðráðinn í að halda áfram því góða starfi sem unnið hefur verið. Stjórnin vill koma því á framfæri að þeir sem vilja koma með hugmyndir eða punkta til umræðu fyrir stjórnarfundi, sem verða að öllu jöfnu einu sinni í mánuði, eru endilega beðnir um að senda póst á stjórn á netfangið [email protected]

Mótaskráin kom út í vikunni og má sjá hér. Tímababilið er þegar farið af stað þetta haustið með stigamóti KR 25. september. Deildarkeppnin hefst hinsvegar formlega laugardaginn 15.október þegar fyrsti leikdagur í 1. deild karla og kvenna fer fram. Keppnin fer fram í Snælandsskóla og er undir umsjón HK en nánari auglýsing kemur fram í vikunni.

Vert er einnig að nefna að Grunnskólamót Rangárvallasýslu fer síðan fram nk. föstudag 14.október á Hellu undir umsjón Borðtennisdeildar Dímonar. Er þetta árlegur viðburður hjá deildinni við að kynna íþróttina fyrir krökkum á grunnskólaaldri í Rangárþingi en mótið hefur verið vel sótt undanfarin ár. 

Þó svo að daginn er tekið að stytta eru skemmtilegir og bjartir tímar framundan nú þegar borðtennisvertíðin er loksins hafin!

img_9847img_9845img_9842

Aðrar fréttir